Bækurnar okkar um Beckmann, Hornið og Pétur Pétursson á tombóluverði á bókamarkaði í Laugardal til 17. mars 2024

Svarfdælasýsl forlag sf. er með þrjár bækur á bókamarkaðinum í Laugardal (undir áhorfendastúkunni við fótboltavöllinn) frá 28. febrúar til 17. mars 2024. Allt áhugavert lesefni á tombóluprísum.

Lífshlaup athafnamanns – útgefin í ágúst 2020.

Saga Péturs Péturssonar sem sat á Alþingi fyrir Alþýðuflokkinn á öldinni sem leið og kom líka víða við sögu í athafnalífi landsmanna og samningum um viðskipti Íslendinga við stjórnvöld ríkja í Austur-Evrópu. Hann starfaði í Landssmiðjunni, var forstjóri Innkaupastofnunar ríkisins, framkvæmdastjóri Kísiliðjunnar, Álafoss og Norðurstjörnunnar,  starfsmannastjóri við Sigölduvirkjun og liðtækur í að reisa við fyrirtæki sem illa stóðu rekstrarlega.

Magnús Pétursson skráði og tileinkar bókina Pétri Óla, bróður sínum. Þeir ólust upp á Vindheimum í Skagafirði eftir skilnað foreldra sinna. Magnús er þjóðkunnur fyrir störf sín. Hann var ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, síðar forstjóri Landspítala og loks ríkissáttasemjari.

Á árinu 2023 kom út Ferðabók Feita-Jarps 1993-2018 sem Magnús skráði og gaf út ásamt Jóni Bjarnasyni. Feiti-Jarpur var ferðahópur nokkurra hestamanna sem fóru um landið sumar eftir sumar sér til fróðleiks, ánægju, skemmtunar og upplifunar.

Beckmann – útgefin í september 2020.

Saga tréskurðarmeistarans og jafnaðarmannsins Wilhelms Ernst Beckmanns sem kom til Íslands sem flóttamaður frá Þýskalandi vorið 1935 eftir að nasistar bönnuðu Jafnaðarmannaflokk Þýskalands. Werner Gerlach, aðalræðismaður Hitlers-stjórnarinnar á Íslandi tróð illsakir við Beckmann og kvaddi þennan landa sinn til skráningar á ræðismannskontórnum. Beckmann gaf skít í Beckmann og lét ekkert færi ónotað til að opinbera andstyggð sína og fyrirlitningu á ræðismanninum og nótum hans. Bretar létu verða sitt fyrsta verk að handtaka Gerlach á hernámsdaginn 10. maí 1940 og flytja í tugthús í Englandi.

Atli Rúnar Halldórsson var ritstjóri og umsjónarmaður útgáfunnar í samstarfi við Stofnun Wilhelms Beckmanns.

Eftir Beckmann liggja listilega gerðir skírnarfontar, altaristöflur og fleiri munir í að minnsta kosti 12 kirkjum á íslandi. Hann skar líka út margvíslega nytjahluti, málaði og teiknaði og hannaði meðal annars merki Hótels Borgar í Reykjavík árið 1946, merki sem hótelið notar enn þann dag í dag (en eigendur þess höfðu enga hugmynd um hönnuð merkisins fyrr en bókin kom út!).

Heimildamynd um Beckmann, Hér er mitt Frón, var sýnd í RÚV í tvígang í febrúar 2024. Kveikjan að henni og hryggjarstykkið í frumhandriti hennar var bókin um Beckmann. Hvorki var bókarinnar getið né útgefandans, Svarfdælasýsls forlags, og ritstjóra/umsjónarmanns útgáfunnar sem lagði samt kvikmyndagerðarmönnum lið.

Hittumst á Horninu – útgefin í október 2021.

Saga veitingastaðarins Hornsins í Reykjavík og fjölskyldunnar sem hefur átt hann og rekið frá upphafi, sumarið 1979. Atli Rúnar Halldórsson skráði.

Hornið var fyrsta pizzerían á Íslandi, matar- og menningarhús í einu af elstu húsum gamla miðbæjarins í höfuðborginni. Jakob H. Magnússon og Valgerður Jóhannsdóttir hafa staðið vaktina og fastagestir skipta þúsundum.

Saga Hornsins er mikilvægur þáttur í sögu veitingareksturs á Íslandi og um leið hluti af byggða- og atvinnusögu Reykjavíkur.

,Hittumst á Horninu’ í verslunum Pennans-Eymundssonar

Svarfdælasýsl forlag sf. hefur gefið út bókina Hittumst á Horninu eftir Atla Rúnar Halldórsson blaðamann og rithöfund. Þar er stiklað er á stóru í sögu Hafnarstrætis 15 í Reykjavík en aðallega fjallað um veitingahúsið Hornið og fjölskylduna sem rekið hefur það frá upphafi, sumarið 1979.

Bókin fæst nú á eftirtöldum verslunum Pennans-Eymundssonar á höfuðborgarsvæðinu og að auki í Hafnarstræti 91-93 á Akureyri:

  • Austurstræti 18
  • Hafnarfjörður, Strandgata 31
  • Hallarmúli 4
  • Kringlan
  • Mjódd við Álfabakka
  • Skólavörðustígur 11
  • Smáralind.

,Hittumst á Horninu´er vandaður og glæsilegur prentgripur, 148 blaðsíður, harðspjalda og kápan með strigaáferð.

Útsöluverð bókarinnar í Pennanum-Eymundsson er 6.499 krónur.

Myndir út útgáfuhófi á Horninu 16. október 2021. Þar var jafnframt opnuð sýning á málverkum Bjarna Daníelssonar, Dalvíkings og fyrrverandi óperustjóra Íslensku óperunnar og skólastjóra Myndlista- og handíðaskólans. Björn Thoroddsen lék á gítar og dúettinn Lúsmý/Loose me spilaði og söng.

Sjávarplássið Dalvík

Út er komin á vegum Svarfdælasýsls forlags sf. bókin Sjávarplássið Dalvík eftir Jóhann Antonsson. Þar er í máli og myndum rakin saga útgerðar og fiskvinnslu sem hófst með útgerð bænda í Svarfaðardal og fylgdi síðan þéttbýlismyndun á Böggvistaðasandi, síðar Dalvík.

Á Dalvík er rík og rótgróin sjávarútvegshefð og þjónustustarfsemi tengd atvinnugreininni. Þar hafa löngum starfað dugmiklir frumkvöðlar sem styrkja byggðina og atvinnulífið með framsýni, áræðni og sérhæfðri, sjávartengdri starfsemi af ýmsu tagi.

Allt þetta er rakið í bókinni, kryddað óborganlegum mannlífssögum og prýtt sögulegum ljósmyndum sem margar hverjar hafa aldrei birst fyrr á opinberum vettvangi.

Þröstur Haraldsson hannaði og braut um bókina en Þorleifur Rúnar Örnólfsson hannaði kápuna. Stefán Björnsson tók myndina framan á kápu en Svanfríður Jónasdóttir myndaði bókarhöfund og eiginmann sinn á bakhliðinni á táknrænum stað, við Dalvíkurhöfn.

Höfundurinn, Jóhann Antonsson, er Dalvíkingur og viðskiptafræðingur með fjölþætta reynslu af sjávarútvegi. Hann var stjórnandi í fyrirtækjarekstri, sinnti frumkvöðlastarfsemi og var ráðgjafi stjórnvalda og fyrirtækja um árabil. Hann hefur skrifað fjölda blaðagreina og frétta um sjávarútveg og sjávarútvegsfyrirtæki í Dalvíkurbyggð og gjörþekkir því viðfangsefni sitt.

Jóhann Antonsson

Jóhann segir meðal annars í formála bókarinnar:

Þegar ég nú lít um öxl og virði fyrir mér atburðarásina teiknar sig upp mynd af því hvernig hvert tímabilið tekur við af öðru. Íbúar og fyrirtæki bregðast sífellt við nýjum aðstæðum og byggja á reynslu og þekkingu sem safnast hefur  í áranna rás. Mikill mannauður er í hryggjarstykkið í þróuninni, hvort heldur talað er um fólkið í fiskvinnslunni eða karlinn í brúnni.

Forlagið dreifir bókinni og hún er seld í helstu bókaverslunum. Bókina má líka nálgast til kaups í afgreiðslu Bókasafns Dalvíkur, hjá bókarhöfundi á Dalvík og hjá verkefnisstjóra forlagsins í Reykjavík, atli@sysl.is.

  • Á toppi fréttarinnar er ein fjöldamargra mynda í bókinni. Hana tók Jón Þ. Baldvinsson um borð i Dalvíkurtogaranum Björgvin EA 311 á áttunda áratugnum. Lengst til vinstri er sjálfur núverandi sjávarútvegsráðherra lýðveldisins, Kristján Þór Júlíusson. Með honum eru Gylfi Ægisson og Valur Hauksson.

Ný bók um lífshlaup Péturs Péturssonar alþingismanns

Stoltur höfundur með glæsilega bók sína og við hjá Svarfdælasýsli forlagi erum býsna stolt líka yfir okkar hlut!

Út er komin hjá Svarfdælasýsli forlagi bókin Lífshlaup athafnamanns, ævisaga Péturs Péturssonar, fyrrverandi alþingismanns og athafnamanns frá Mýrdal, eftir son hans, Magnús Pétursson fyrrverandi ráðuneytisstjóra, forstjóra Landspítala og ríkissáttasemjara.

Lesa meira

Nýju bókinni landað í Silungakvísl

Stór stund þegar tekið er við bók úr prentun. Nýrri bók Svarfdælasýsls forlags, Lífshlaupi athafnamanns, eftir Magnús Pétursson, var landað með viðhöfn á hlaðinu heima hjá höfundi í Silungakvísl í Reykjavík. Hafist var handa við að undirbúa dreifingu í bókaverslanir Pennans-Eymundsson á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri og víðar og í Skagfirðingabúð á Sauðárkróki.

Fyrirhugað útgáfuteiti í Nauthóli var blásið af vegna veirufársins. Það var auðvitað mikil synd en nauðsynleg og eðlileg ráðstöfun.

Atli Rúnar Halldórsson, umsjónarmaður útgáfunnar af hálfu Svarfdælasýsls forlags, og Magnús Pétursson, höfundur bókarinnar, spæna plast utan af sendingunni úr prentsmiðjunni. Spenna magnaðist …