Bókarheimsókn til Ásgeirs Jóh. í Sunnuhlíð

„Ég á Pétri Péturssyni afskaplega margt gott að unna. Hann réði mig til starfa hjá Innkaupastofnun ríkisins þegar hann var forstjóri þar og síðan átti fyrir mér að liggja að taka við forstjórastarfinu og gegna því í 28 ár,“ sagði Ásgeir Jóhannesson þegar hann tók við ævisögunni Lífshlaup athafnamanns í dag.

Dagstund yfir kaffibolla í Sunnuhlíð í Kópavogi jafnaðist á við námsbraut í stjórnmálafræði aldarinnar sem leið. Ásgeir veit margt sem gerðist á bak við tjöldin sem skýrir óvænta atburðarás framan við tjöldin. Tíminn leið fljótt.

„Pétur var duglegur og útsjónarsamur við að reisa við fyrirtæki sem ríkið fékk í fangið hangandi á horriminni. Álafoss er eitt dæmi, Norðurstjarnan annað.

Jóhannes Nordal seðlabankastjóri og Magnús Jónsson fjármálaráðherra frá Mel treystu honum vel til slíkra verka eftir að hafa kynnst því hverju hann fékk áorkað og fengu hann í hvert verkefnið á fætur öðru.

Jóhannes og Magnús fengu hann sömuleiðis til að fara í Kísiliðjuna í Mývatnssveit og stýra henni þegar fyrirtækið var sett á laggir.

Við Pétur héldum alltaf vinskap. Hann var í blaðstjórn Alþýðublaðsins, málgagns Alþýðuflokksins. Guðmundur Í. Guðmundsson var formaður blaðstjórnar og þriðji maður var Baldur Eyþórsson í Odda. Þegar ég hafði starfað Innkaupastofnun í fjögur eða fimm ár kallaði Pétur mig til fundar við sig og spurði hvort ég væri til í að gerast framkvæmdastjóri Alþýðublaðsins í eitt ár. Ég gerði það en framkvæmdastjórnartíminn á blaðinu varði reyndar í tvö ár. Síðara árið vann ég hjá Innkaupastofnun en annaðist rekstur Alþýðublaðsins á kvöldin og um helgar!“

Ásgeir Jóhannesson var á sínum tíma formaður Sunnuhlíðarsamtakanna sem lyftu Grettistaki í húsnæðismálum eldri borgara í Kópavogi með því að reisa glæsileg hús með íbúðum, hjúkrunarheimili, dagvistum barna starfsfólks og þjónustumiðstöð. Hann skráði bók um Sunnuhlíðarævintýrið 1979-1999. Sögufélag Kópavogs gaf bókina út fyrr á þessu ári.

Útstilling í Austurstræti í dag.
Útstilling í Kringlunni suður.

Ný bók um lífshlaup Péturs Péturssonar alþingismanns

Stoltur höfundur með glæsilega bók sína og við hjá Svarfdælasýsli forlagi erum býsna stolt líka yfir okkar hlut!

Út er komin hjá Svarfdælasýsli forlagi bókin Lífshlaup athafnamanns, ævisaga Péturs Péturssonar, fyrrverandi alþingismanns og athafnamanns frá Mýrdal, eftir son hans, Magnús Pétursson fyrrverandi ráðuneytisstjóra, forstjóra Landspítala og ríkissáttasemjara.

Pétur Pétursson kom víða við í athafna – og stjórnmálalífi landsmanna á öldinni sem leið. Saga hans er því bæði áhugaverður og litríkur samtímaspegill á miklum umbrota og framfaratímum.

Hann sat á Alþingi fyrir Alþýðuflokkinn og kom líka víða við sögu í athafnalífinu. Hann starfaði fyrst í Landssmiðjunni, tók þátt í viðræðum um viðskipti Íslendinga við stjórnvöld ríkja í Austur-Evrópu, var forstjóri Innkaupastofnunar ríkisins, framkvæmdastjóri Kísiliðjunnar, Álafoss og Norðurstjörnunnar, starfsmannastjóri við Sigölduvirkjun.

Þá var Pétur mjög liðtækur við að endurskipuleggja atvinnurekstur sem gekk illa og gárungar fóru þá að kalla hann „afréttara fyrirtækja“!

Enn má nefna að Pétur var einn útgefenda tímaritsins Stjörnur þar sem fjallað var um bíómyndir og kvikmyndaleikara.

Magnús tileinkar bókina Pétri Óla bróður sínum. Þeir ólust upp á Vindheimum í Skagafirði eftir skilnað foreldra sinna í Reykjavík og í bókinni er meðal annars fjallað um uppvaxtarár bræðranna á Vindheimum í máli og myndum.

  • Lífshlaup athafnamanns er liðlega 400 blaðsíður að stærð, prýdd fjölda ljósmynda sem ekki hafa birst fyrr opinberlega.

Nýju bókinni landað í Silungakvísl

Stór stund þegar tekið er við bók úr prentun. Nýrri bók Svarfdælasýsls forlags, Lífshlaupi athafnamanns, eftir Magnús Pétursson, var landað með viðhöfn á hlaðinu heima hjá höfundi í Silungakvísl í Reykjavík. Hafist var handa við að undirbúa dreifingu í bókaverslanir Pennans-Eymundsson á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri og víðar og í Skagfirðingabúð á Sauðárkróki.

Fyrirhugað útgáfuteiti í Nauthóli var blásið af vegna veirufársins. Það var auðvitað mikil synd en nauðsynleg og eðlileg ráðstöfun.

Atli Rúnar Halldórsson, umsjónarmaður útgáfunnar af hálfu Svarfdælasýsls forlags, og Magnús Pétursson, höfundur bókarinnar, spæna plast utan af sendingunni úr prentsmiðjunni. Spenna magnaðist …