Um bókina Svarfdælasýsl

Bókin Svarfdælasýsl kom formlega út á Dalvík á fimmtudaginn 12. október 2017, var fyrst kynnt þar og daginn eftir í Norðurslóðasetrinu á Akureyri.

Þrír meginkaflar eru í bókinni:

  • Kvikmyndin Land og synir sem tekin var upp í Svarfaðardal 1979 og markaði upphaf íslenska kvikmyndavorsins.
  • Húsabakkaskóli í Svarfaðardal frá upphafi 1955 til enda 2005. Meðal annars er birt nemenda- og starfsmannatal skólans á starfstímanum.
  • Ætt kennd við bæinn Göngustaði í Svarfaðardal og ættbogi systkina sem voru mörg hver orðin goðsagnir í byggðarlaginu í lifanda lífi.

Útgefendur bókarinnar eru svarfdælsk systkin: Atli Rúnar, Jón Baldvin, Helgi Már, Óskar Þór, Jóhann Ólafur og Inga Dóra Ingibjargar- og Halldórsbörn frá Jarðbrú. Óskar Þór og Atli Rúnar eru höfundar bókarinnar.

Svarfdælasýsl er 560 blaðsíður og þar eru birtar um 500 ljósmyndir. Fæstar myndanna hafa áður sést opinberlega og margar reyndar komið fyrir fárra manna augu þar til nú.

Þorleifur Rúnar Örnólfsson, grafískur hönnuður, annaðist hönnun og umbrot.

Bókin er innbundin og framan á kápu er ljósmynd af Svarfaðardalsmálverki eftir Kristin G. Jóhannsson myndlistarmann af Göngustaðaætt.