Útgáfustuð í Salnum

Fjölmennt var og góðmennt mjög í Salnum í Kópavogi í gær, á þriðju og síðustu útgáfusamkomu Svarfdælasýsls. Við erum afskaplega þakklát fyrir undirtektir og hlýlegar viðtökur þar sem annars staðar.

Ágúst Guðmundsson, leikstjóri Lands og sona, fór sem fyrr á kostum í frásögn af upptöku kvikmyndarinnar og Ingibjörg Fríða Helgadóttir og Sigurður Ingi Einarsson slógu í gegn í tónlistarflutningi. Textinn við héraðssöng Svarfdælinga var á tjaldinu í lokin og fólk í sal tóku hressilega undir. Áhrifamikill og ljúfur endir á samkomunni.

Eiður Friðriksson frá Hánefsstöðum var meðal gesta í Salnum. Hann var kallaður á svið í tilefni af því að vera aldursforseti í nemendahópi Húsabakkaskóla frá upphafi, fæddur 1941. Hann fékk bók að gjöf í heiðursskyni og keypti aðra á eftir til að færa Hafliða Halli, bróður sínum, sem liggur á Landspítala á batavegi eftir afar alvarlegt hjartaáfall. Sendum Hafliða góðar kveðjur með ósk um að lestur bókarinnar flýti fyrir bataferlinu!

Júlíus Jónasson var sömuleiðis kallaður á svið til að þiggja bók í þakklætisskyni fyrir aðstoð á vettvangi og fyrir að hafa heimilað okkur að birta myndir úr ljósmyndasafni föður síns, Jónasar Hallgrímssonar – Jónasar á bílaverkstæðinu (Bílaverkstæði Dalvíkur). Myndir Jónasar eru menningarsjóður í góðum höndum sonarins. Júlli er tæknistjóri Salarins, margra manna maki í öllu sem tengist hljóði, ljósum, upptökum og tæknilegum samskiptum við tónlistarfólk þar á bæ. í Salnum.

Það var svo sérstakur heiður að geta kallað á svið Ragnheiði Steindórsdóttur leikkonu, ekkju Jóns Þórissonar leikmyndagerðarmanns í Landi og sonum og ljúfmennisins mikla sem lést langt, langt um aldur fram. Parið úr Landi og sonum, leikararnir Guðný Ragnarsdóttir og Sigurður Sigurjónsson, komu sömuleiðis á svið og að sjálfsögðu Ágúst Guðmundsson.

Maður er manns gaman og gestir flýttu sér hreint ekki heim á leið að samkomu lokinni, líkt og gerðist líka í Bergi á Dalvík og Norðurslóð á Akureyri. Samkoman hófst kl. 16 í gær og þeir síðustu fóru af vettvangi um kl. 18:30. Það var nóg um að skrafa á léttum nótum. Stundin var bara svo notaleg.

Ein athugasemd við “Útgáfustuð í Salnum

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s